Einn höfuðkosturinn við að vera sinn eigin ritstjóri (það eru ýmsir ókostir við það líka) er að maður þarf ekki að taka mark á prófarkalesurum og getur meira að segja tilkynnt þeim fyrirfram að maður muni ekki gera það. (Hér slæ ég alla mína venjulegu varnagla um ágæti prófarkalesara; þetta er afbragðsfólk sem vinnur oft leiðinlega og vanþakkláta vinnu.) Þegar ég hef sent eigin handrit í prófarkalestur hef ég stundum afhent prófarkalesurum lista yfir helstu sérviskur mínar og tilkynnt þeim að ég muni ekki taka rökum hvað þær varðar svo þeir geti alveg sleppt því að krota í þær. Sumir geta auðvitað ekki stillt sig og krota samt. Þeir um það. Þetta þýðir ekki að ég vilji ekki fá neinar ábendingar. En þetta er mín bók og ég hef síðasta orðið, ekki prófarkalesararnir. Og ekki voru prófakalesararnir okkar vanir að skipta sér óhóflega af kommusetningu. Enda eru íslenskar kommusetningarreglur asnalegar og ég hef aldrei getað lært þær.
Þetta gengur ekki í tímaritaútgáfu. Það er vissulega nokkuð til í því að það þurfi að vera samræmi, að minnsta kosti á milli greina í hverju tímariti. Ég get ekki ætlast til þess að komast upp með sérviskurnar mínar þar á sama hátt og í bókum sem ég skrifa og ritstýri sjálf. Ef ég vil breyta einhverju verð ég helst að fá því breytt í öllu blaðinu, eða jafnvel öllum tímaritum Fróða. Og ég get náttúrlega ekki ætlast til þess að allir fylgi minni prívatstafsetningu, svo að stundum þarf ég að láta undan. Samt fékk ég það í gegn að ég þarf ekki lengur að horfa upp á ,,baguette brauð" eða ,,chili pipar" í texta sem ég hef skrifað. Og allt í einu er ,,minta" orðin viðurkenn stafsetning en ekki bara sérviska mín, kannski vegna þess að minta er orðið aðalflettiorðið í Íslenskri orðabók í stað mynta. Svo að þetta er allt í áttina ...