Ég var að fletta nýju tölublaði af Matartímanum, sem Hagkaup gefur út. Þar er meðal annars opna sem heitir Kryddleginn fiskur og glóðarsteikt brauð, með viðtali við tvo kokka og uppskriftum frá þeim. Sem er auðvitað hið allrabesta mál, nema fyrst brauðið er kynnt í fyrirsögn sem annað aðalmálið og nýjung frá þessum ágætu kokkum, þá hefðu þeir vel mátt geta þess að uppskriftin er næstum alveg orðrétt frá mér, úr sjónvarpsþætti sem ég gerði með þeim í fyrrasumar; þá töluðu þeir allavega eins og þeir hefðu aldrei prófað sjálfir að baka brauð á grillinu. - Eða fyrst þeir eru með uppskriftina þarna á annað borð, þá hefðu þeir átt að nenna að baka brauð eftir henni fyrir myndatökuna í staðinn fyrir að nota upphitað nanbrauð. Finnst mér.
Annars er reyndar alveg ágætt að mín er hvergi getið því það er búið að gera eitt við uppskriftina sem veldur því að hún er ónothæf, og ef þið eigið blaðið skuluð þið ekki fara eftir henni eins og hún er þar. Ég er ekki mikið fyrir að gefa upp ákveðið magn af hveiti í brauðuppskriftum af þessu tagi, það er svo misjafnt hvað hveitið getur tekið upp mikinn vökva að ég vil frekar bæta því út í smátt og smátt og nota bara það sem þarf. Þannig sendi ég uppskriftina til Sjónvarpsins á sínum tíma (,,hveiti eftir þörfum"( og þannig birtist hún þar (og líka á vefsíðu kokkanna, án þess að nokkur hafi beðið leyfis fyrir þeirri birtingu). En nú er búið að setja inn ,,ca. 800 g hveiti", sem er fáránlegt, þar sem eini vökvinn í deiginu er 3 dl af vatni. Hæfilegt magn af brauðhveiti frá Kornaxi í þessa tegund af brauði er um eða innan við 500 grömm, miðað við þetta vökvamagn; ef maður setur um 800 g af hveiti saman við 3 dl af vatni verður útkoman þurr mylsna, kannski með stöku deigtrefjum á stangli. (Ég prófaði þetta einmitt hér í eldhúsinu áðan, þótt mér leiðist alltaf að eyðileggja mat.)
En hér er allavega rétt uppskrift. Þetta er bara mjög hefðbundin brauðuppskrift og ég á engan einkarétt á henni. En orðalagið er mitt.
Grillbrauð
3 dl vatn, ylvolgt
1/2 tsk hunang
1 msk ger
hveiti eftir þörfum, helst brauðhveiti (um 500 g, semsagt)
1 tsk salt
1 msk ólífuolía
Setjið vatn, ger og hunang í skál og þegar gerið freyðir er hveiti hrært saman við smátt og smátt ásamt salti og ólífuolíu. Haldið áfram að bæta við hveiti þar til deigið er vel hnoðunarhæft en þó lint. Hnoðið það vel, mótið það svo í kúlu og látið það lyfta sér í 1-1 1/2 klst, eða þar til það hefur tvöfaldast. Þá er það slegið niður, mótað í kúlu og látið bíða í um 10 mínútur. Þá er því skipt í 10-12 búta og hver bútur flattur út í þunnt, aflangt brauð. Raðað á heitt grillið, lokað og bakað í nokkrar mínútur á hvorri hlið, eða þar til brauðið hefur blásið vel út og tekið góðan lit.