Fyrir nokkrum árum fór ég í lest frá London norður til York og ferðaðist á fyrsta farrými af því að það var ódýrara en annað farrými (af því bara, skildist mér helst). Það var mjög fínt nema að einu leyti: Allir farþegarnir nema ég voru ungir bissnissmenn og konur sem töluðu stanslaust í gemsana sína alla leiðina og töluðu hátt. Símarnir alltaf að hringja og ekki mikið næði. Á heimleiðinni seint um kvöldið fór ég líka á fyrsta farrými en þá bilaði lestin einhvers staðar norður af London og ég endaði strönduð á auðum brautarpalli in the middle of nowhere ásamt rosknum manni á tveimur hækjum og fáklæddum járnbrautarstarfsmanni. Nei, hann var nú reyndar fremur léttklæddur en fáklæddur og skalf af kulda, því þetta var í lok janúar og hávaðarok. Lestin sem flutti okkur svo loksins á leiðarenda var hreint ekki með neitt fyrsta farrými, allavega fann ég það ekki.
Ferðin suður með rútunni minnti mig pínulítið á þetta, það er að segja ferðina til York. Reyndar er synd að segja að það sé fyrsta farrými í SBA-Norðurleiðarrútunni, en símarnir hringdu ekkert mikið minna og ég er margs vísari um samferðarmenn mína og líf þeirra. Til dæmis veit ég að það er nærri kaldavatnslaust hjá manninum sem sat handan við ganginn - líklega samt í sumarbústaðnum - og klósettkassinn er tuttugu mínútur að fyllast. Ég veit að það var svo mikið fjör í gamalmennasumarbúðunum sem blindi maðurinn (hann sagðist vera blindur en var þó að lesa) í sætinu fyrir framan var að koma úr að hann var þreyttari en þegar hann fór í hvíldardvölina. Hann var með síma sem hringdi ,,hvað er svo glatt sem góðra vina fundur". Hátt og oft. Ég veit að kona sem sat einhvers staðar fyrir aftan mig ætlar að steikja silung annað kvöld. Ég veit að strák sem sat einhvers staðar þar fyrir aftan þykir mjög vænt um afa sinn. Og fleira ...