Ég fór með gömlu hjónunum í skoðunarferð um Skagafjörðinn. Hann hafði nú lítið breyst frá því síðast.
Eitthvað fræddist ég samt um mannlíf fyrr og nú (,,karlinn er alltaf með þessa helvítis fræðslu" eins og efnafræðistúdentinn sagði einhvern tíma á sínum yngri árum eftir bílferð með afa sínum). Og í Viðvíkursveitinni datt mér af einhverri ástæðu í hug afbökun á ljóði sem við sungum stundum hér áður fyrr; tek þó enga ábyrgð á að ég fari rétt með, enda hefur margsannast að ég man engan kveðskap rétt:
Andar árblæ heitum
á Ásgeirsbrekku og Sel.
Sumar er í sveitum
síldarmél.
Þótt ég sé lítið að elda þessa dagana, þá sleppið þið ekki alveg við uppskriftir því hér kemur ansi góð en einföld rabarbarakökuuppskrift frá móður minni. Reyndar upphaflega fengin úr gömlu Gestgjafablaði en svipaðar kökur, ýmist gerðar með rabarbara eða eplamauki, þóttu mikið góðgæði á mínum sokkabandsárum, hvort sem heldur var með kaffinu eða sem eftirréttur. Eplakökur af þessu tagi voru gjarna kallaðar danskar eplakökur; ekki man ég fyrir víst af hverju það var og bókasafnið mitt er hvergi nærri, svo ég get ekki flett upp til dæmis í frøken Jensen eða maddömu Mangor til að athuga hvort þær eru með svona uppskrift.
Rabarbarakaka með tvíbökum
600 g rabarbari
300 g sykur
150 g tvíbökur
50 g smjörlíki eða smjör
250 ml rjómi
Rabarbarinn þveginn, skorinn í bita og settur í pott ásamt 200 g af sykrinum. Látið malla við hægan hita í u.þ.b. hálftíma og síðan kælt. Tvíbökurnar settar í plastpoka og muldar með kökukefli (það má líka grófmylja þær með höndunum og setja svo í matvinnsluvél). Settar á pönnu ásamt smjöri/smjörlíki og 100 g af sykri, hitað þar til tvíbökurnar hafa brúnast og hrært stöðugt í á meðan svo ekki brenni. Kælt. Brauðmylsna og rabarbari er svo sett í lögum í skál (ekki of víða) og brauðmylsna höfð efst og neðst. Rjóminn þeyttur og settur ofan á.
Kakan er best ef hún er látin standa í kæli í nokkra klukkutíma áður en rjóminn er settur á hana en hún geymist líka í 2-3 daga í kæli og versnar hreint ekki neitt við það.