Nú þarf ég líklega að fara að passa hvað ég skrifa hér rétt eins og hver annar unglingur, fyrst mamma er farin að lesa það sem ég skrifa. Eins og það sé ekki nóg að börnin og barnabarnið lesi það.
En drengirnir eru allavega farnir af stað til síns heima og hér verður ekki minnst einu orði á fótbolta næstu daga. Mikið óskaplega er ég fegin því að áhugi efnafræðistúdentsins á íþróttum var í lágmarki þegar hann var átta-níu ára. Já, og reyndar lengi eftir það. Og hvað sem íþróttaáhuga Boltastelpunnar líður, þá er hún ekki sérlega mikið gefin fyrir að ræða það áhugamál sitt við blásaklausar ömmur og frænkur, hvort sem þær vilja eitthvað um það vita eða ekki.
Ég verð með gömlu hjónin í tölvukennslu næstu daga. Fyrsta verkefnið er auðvitað að kenna þeim að nota Íslendingabók. Spurning hvað er óhætt að sýna þeim meira ...