Mér tekst alltaf að gleyma því á milli heimsókna hvað það er mikið álag á skynfærin að vera hér á Smáragrundinni. Að vísu fyrst og fremst á milli 6 og 8 á kvöldin, á öðrum tímum er hér yfirleitt afskaplega kyrrlátt og rólegt. Allavega eftir að fótboltabrjálæðingarnir hurfu.
Klukkan sex er kveikt á útvarpinu til að hlusta á fréttirnar. Bæði tækinu sem er inni í stofu og því sem er handan við vegginn, inni í eldhúsi. Þau eru bæði höfð fremur hátt stillt. Og þau eru alls ekki synkróniseruð. Af einhverri ástæðu er annað (eldhústækið held ég) svona sekúndu á eftir, þannig að maður heyrir fréttirnar allar tvíteknar. En það eru þó allavega yfirleitt sömu fréttirnar.
Klukkan hálfsjö kveikir pabbi á fréttunum á Stöð 2. Það er áfram kveikt á útvarpinu inni í eldhúsi. Stundum er það líka stillt á Stöð 2. Stundum ekki. Þegar sest er að borðum um eða rétt fyrir 7 er eldhústækið stillt yfir á Rás 2 til að heyra sjónvarpsfréttirnar. En Stöð 2 gengur áfram inni í stofu.
Það er þó ekki fyrr en eftir mat, þegar sest er inn í stofu til að horfa á það sem eftir er af sjónvarpsfréttunum, sem ástandið verður alvarlegt. Ég held að ég sé ekki að ljúga neitt voðalega miklu ef ég segi að það eru mörg ár síðan ég sá síðast heila frétt í sjónvarpinu hér. Pabbi er ekkert voðalega tæknilega sinnaður (þótt honum gangi reyndar alveg þokkalega að læra á tölvuna) en hann á ekki í nokkrum vandræðum með sjónvarpsfjarstýringuna. Því miður. Ég taldi áðan, hann skipti 57 sinnum á milli stöðva á 20 mínútum. Og af því að ég var meira að hlusta en horfa, og hann er svo andskoti lipur á fjarstýringunni, þá runnu fréttirnar meira og minna saman við Ísland í dag og einhvern þátt á Skjá 1 og ég skildi ekkert af hverju Vilhjálmur Vilhjálmsson var allt í einu farinn að tala um framboð til Öryggisráðsins eða eitthvað.
Eins gott að það eru ekki 45 stöðvar á þessu sjónvarpi.