Sit hérna og er að horfa á þrjú eða fjögur síðustu lögin í Evró, annars sá ég ekkert af keppninni nema auðvitað Austurríki, sem ég laumaðist til að kíkja á í útskriftarveislunni. Alf stóð alveg undir væntingum. Ég held stíft með honum. Ég var að tala við Eldfjallið áðan, hún var ekki búin að sjá neitt sem hún hélt sérstaklega með og sagðist ekki ætla að kjósa af því að það kostaði peninga og mamma hennar og pabbi væru búin að eyða svo miklum peningum í dag að henni þætti ekki á það bætandi. Skynsöm stúlka.
Útskrifarveislan tókst annars ljómandi vel, ég var með grillaðan kalkún og grillað lambalæri, litlar fiskibollur, sítrusmaríneraðar rækjur með papriku og asíum, kjúklingalifrarkæfu, svart hrísgrjónasalat, spínat- og eikarlaufssalatblöndu með gljáðum kirsiberjatómötum, norðurafríska tómatsósu með chili, kóríander og rúsínum, hummus, guacamole, skyrsósu með basilíku og sólþurrkuðu grænmeti, bakaðan Höfðingja með apríkósusultu og pekanhnetum, steinseljupestó, fullt af brauði ... Sætmetið lét ég öðrum eftir að sjá um en það var kransakaka og sörur. Ekki slæmt.