Ég var beðin hér áðan um uppskrift að glasatertubotnum. Stutta útgáfan kemur hérna að neðan. Langa útgáfan er aftur á móti hér. Kartöflumjölið er svosem ekki nauðsynlegt en mér finnst botnarnir verða léttari og betri ef það er notað.
Glasatertubotn
3 egg
sykur
2 msk kartöflumjöl (má sleppa)
hveiti
lyftiduft eftir atvikum (sjá löngu útgáfuna)
Ofninn hitaður í 190°C og meðalstórt tertuform smurt vel. Þremur jafnstórum glerglösum stillt upp hlið við hlið. Eggin brotin í eitt. Sykur settur í annað glas, jafnhátt og eggin ná. Kartöflumjölið sett í það þriðja og fyllt upp með hveiti, jafnhátt og eggin ná. Lyftidufti bætt í hveitiglasið, 0-3 teskeiðum, eftir því hvaða stefnu maður fylgir (sjá löngu útgáfuna). Egg og sykur þeytt mjög vel saman. Hveitið sigtað yfir, blandað gætilega saman við með sleikju, hellt strax í formið og sett beint í ofninn (þetta er sérstaklega mikilvægt ef notað er kartöflumjöl). Botninn bakaður í um 18 mínútur, eða þar til hann er svampkenndur, gullinbrúnn og farinn að losna frá hliðum formsins. Hvolft úr forminu og látinn kólna á grind.