Það var verið að biðja mig um hummusuppskriftina sem ég nota oftast og hér kemur hún. Þetta er nokkurn veginn grunnuppskrift og ekkert verið að bæta út í hana hlutum sem ekki eiga heima í hummus, eins og sojasósu, rifnum engifer og þess háttar. Steinseljan og kumminið er þó ekki alveg hefðbundið en er notað í ýmsum arabískum hummusuppskriftum sem ég á og mér finnst það betra.
Auðvitað er hægt að nota þurrkaðar kjúklingabaunir, leggja þær í bleyti og sjóða síðan, en ég ákveð venjulega með nokkurra mínútna fyrirvara að mig langi í hummus og þá er ósköp þægilegt að grípa kjúklingabaunadós úr jarðskjálftabirgðunum í búrinu og nota hana bara. Það finnst ekki teljandi munur á bragðinu.
Hummus bi tahini
1 dós kjúklingabaunir
2-4 hvítlauksgeirar, eftir smekk
150 ml tahini, ljóst (ekki þetta dökka)
2-3 msk steinselja, söxuð (má sleppa)
1/4 tsk kummin (má líka sleppa)
2 msk ólífuolía
nýmalaður pipar
salt
1/2 - 1 sítróna
Baunirnar settar í matvinnsluvél ásamt hluta af leginum úr dósinni (afgangurinn geymdur). Hvítlaukur, tahini, steinselja, kummin og olía sett út í og maukað mjög vel. Þynnt eftir þörfum með meira af baunaleginum. Kryddað með pipar og salti og síðan bragðbætt með nýkreistum sítrónusafa eftir smekk.