Jæja, það var kannski eins gott að ég fór ekkert út í gærkvöldi því að nú er ég um það bil að verða búin að affrysta og þrífa frystiskápinn og það er töluvert þrekvirki, meira en gengur og gerist um frystiskápaaffrystingar. Ég get nefnilega ekki látið hann standa inni í búri, þar sem hann er allajafna, á meðan hann er að ryðja sig, því að allt sem lekur úr honum (og það var nokkuð mikið í þessu tilviki) lekur beint niður í búrið á hæðinni fyrir neðan ef ég stend ekki beinlínis yfir skápnum allan tímann með tuskur - og mundi þó ekki duga til. Þannig að ég þarf að hálftæma ísskápinn, færa hann út á mitt gólf og drösla svo frystiskápnum út úr búrinu og á þann stað sem ísskápurinn er venjulega og láta hann standa þar á meðan hrímið og klakinn er að þiðna. Eldhúsgólfið er flísalagt og þess vegna má alveg flæða útum það.
Þetta þarf ég að gera ein, því að efnafræðistúdentinn var að skemmta sér í gærkvöldi og það er engin spurning að klukkan hálfátta í morgun var mun auðveldara að drösla frystiskápnum ein yfir þröskuldinn en að vekja hann til að aðstoða við verkið. Ég held líka að ég flyti hann ein á sinn stað á eftir, það tekur því ekki að reyna að vekja drenginn.
Þegar skápurinn var tæmdur fannst eitt og annað sem ég var búin að steingleyma. Til dæmis er nokkuð ljóst að ég geri eitthvað úr kjúklingalifur á næstunni, ég hef greinilega verið að birgja mig upp af því góðgæti fyrir jólin. Spurning hverjum ég á að bjóða að borða það með mér, það er eins og mig gruni að ýmsir afkomenda minna mundu afþakka pent (eða miður pent eftir atvikum).