Hér er þá uppskriftin - fiskurinn (má vera hvaða fiskur sem er, ég var bara með ýsu í þetta skipti) er eiginlega gufusoðinn ofan á grænmetinu og safinn af því myndar svo dálitla sósu í botninum á pottinum. Það er auðvitað best að gera þetta í alvöru tagine en venjulegur húðaður pottur eða panna með þéttu loki ætti alveg að duga. Það má líka skera grænmetið í stærri bita og sjóða það þá ögn lengur en þá er best að setja fiskinn og sítrónurnar ekki ofan á fyrr en smástund er búin af suðutímanum.
Það mætti svosem alveg hafa annað grænmeti, til dæmis kúrbít, blómkál eða tómata. Fyrir áhugafólk um norður-afrískan mat ætla ég svo að benda á að í næsta Gestgjafa, sem er að fara í prentun á morgun, verður mikið af uppskriftum þaðan ættuðum.
Fiskitagine
2-3 msk ólífuolía
3 gulrætur, skornar í þunnar sneiðar
2-3 paprikur, fræhreinsaðar og skornar í bita
3-4 kartöflur, afhýddar og skornar í þunnar sneiðar
1 rauðlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
1/2 tsk kummin
1/2 tsk paprikuduft
1/2 tsk kóríanderfræ
nýmalaður pipar
salt
600 g fiskflök, roðflett og beinhreinsuð
1 sítróna
söxuð steinselja (má sleppa)
Olíunni hellt á botninn á taginu eða þykkbotna potti með þéttu loki. Gulrótum, papriku, kartöflusneiðum, lauk og hvítlauk dreift í taginuna/pottinn. Kryddinu blandað saman og hluta af því dreift yfir. Fiskurinn skorinn í bita og lagður ofan á. Kryddaður með kryddblöndunni. Sítrónan skorin í sneiðar og þær lagðar ofan á og saxaðri steinselju dreift yfir. Lokað, hitað og síðan látið krauma við vægan hita í um 15 mínútur, eða þar til grænmetið er meyrt og fiskurinn soðinn. Borið fram með kúskús, gjarna bragðbættu með ólífuolíu, sítrónusafa, steinselju og e.t.v. afgangi af kryddblöndunni sem fór á fiskinn.