Ég var beðin um þessa uppskrift í gær, sendi hana frá mér í tölvupósti en datt svo í hug að hún ætti kannski alveg eins að fara hingað, ef einhver ætlaði sér að hafa rósakál með páskamatnum, t.d. svínasteikinni:
Gljáð rósakál með möndlum
500 g rósakál
4 msk möndluflögur
3 msk púðursykur
2 msk hvítvínsedik
1 msk dijonsinnep
1 msk smjör
pipar
salt
Rósakálið snyrt og síðan gufusoðið eða soðið í svolitlu saltvatni í 5-10 mínútur eftir stærð en síðan hellt í sigti og látið renna vel af því. Á meðan það sýður eru möndluflögurnar ristaðar á þurri pönnu við meðalhita þar til þær eru að byrja að taka lit en síðan teknar af hitanum. Púðursykur, edik, sinnep og smjör hrært saman á stórri pönnu og hitað að suðu. Þá er pannan tekin af hitanum, kálinu bætt á hana og hrært þar til það er allt þakið sykurbráðinni. Kryddað með svolitlum pipar og salti og möndlunum hrært saman við. Borið fram með steiktu kjöti eða fuglakjöti.