(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

13.4.03

Erlingur segir frá því að hann hafi drukkið hreinsiefni fyrir mjaltavélar einhverntíma í frumbernsku. Það gerði ég nú aldrei, enda var enn handmjólkað í Djúpadal þegar ég man fyrst eftir mér og ekki komið neitt rafmagn til að knýja mjaltavélar. Aftur á móti drakk ég, þegar ég var á öðru ári, vænan gúlsopa af steinolíu úr dós sem höfð var undir kolaeldavélinni og notuð til uppkveikju. Þetta var um Vallabakkahelgina, en hestamannamótið á Vallabökkum var fyrirrennari Vindheimamelamótsins. Pabbi og mamma voru í þann veginn að leggja af stað á mótið þegar ég komst í olíuna og vildi svo til að það stóð bíll á hlaðinu sem kominn var að sækja þau. Það hefur líklega bjargað lífi mínu því að ef þetta hefði gerst nokkrum mínútum seinna hefðu þau verið farin og enginn heima nema unglingsstúlka sem var að passa okkur krakkana. Þótt hún hefði hugsanlega getað náð í einhvern í sveitasímanum er óvíst hvenær hjálp hefði borist því varla var nokkur maður eða bíll heima í sveitinni, og nokkurra kílómetra leið á næstu bæi. En þess í stað var ekið með mig í loftinu á móti lækninum, sem kom utan af Krók eins hratt og bíllinn komst, og ég lifði þetta semsagt af. Það mun þó hafa staðið tæpt. Og ég lærði náttúrlega ekkert af þessu, allavega ekki að láta torkennilega vökva eiga sig.

Ég man ekkert eftir þessu frekar en öðrum atburðum sumarsins 1958 en hitt veit ég að það var gott veður þennan dag. Það var nefnilega alltaf gott veður um Vallabakkahelgina, er mér sagt. Þetta breyttist um leið og hestamannamótið fluttist yfir á Vindheimamela, þar var alltaf rok og rigning. Og þótt prestsekkjan ömmusystir mín héldi því ævinlega fram að meira að segja rigningin væri yndisleg í Skagafirðinum (hún fluttist þaðan um tólf ára aldur), þá er ég ekki alveg sammála. Mér leiðist rigning, jafnvel þótt hún sé skagfirsk.

|