Áðan fylltist ég skelfilegri sjálfsvorkunn af því að ég átti ekkert páskaegg og öfundaði efnafræðistúdentinn óskaplega af stóra páskaegginu sem ÉG keypti handa honum (að vísu keypt í Krónunni fyrir frekar lítið, en sama er), svo að ég rölti niður í Bónus til að kaupa páskaegg bara handa mér.
Auðvitað keypti ég ekkert páskaegg, bara reyktan kjúkling í matinn annað kvöld, því Gurrí ætlar að koma í mat og ég lofaði henni að það yrði enginn meinlætamatur (les: fiskur). Auðvitað endaði þetta með því að ég kom við í Máli og menningu og keypti mér matreiðslubók. Flestar mínar bæjarferðir núorðið enda á því að ég kem heim með matreiðslubók. ,,Well, it's your ewes and cows," eins og efnafræðistúdentinn sagði áðan.
Ég er allavega búin að finna uppskrift að kvöldmatnum, litlar svínakjötsbollur í sætri chilisósu. Svo að bæjarferðin var hreint ekki ónýt.