Um síðustu helgi var ég að borða svo mikið af góðum mat (jæja, mestallt var gott; kvöldverðurinn í Perlunni var ekkert spes) að ég mátti ekkert vera að því að elda sjálf. Núna þessa helgina er ég búin að elda (og borða) svo mikið af góðum mat að ég hef ekkert mátt vera að því að kveikja á tölvunni. Í gærkvöldi hittumst við Gestgjafakonurnar, elduðum saman og sátum svo að spjalli lengi nætur. Í kvöld kom svo saumaklúbburinn í mat til mín. Ég vil helst bjóða þeim í mat. Þessir svokölluðu ,,saumaklúbbaréttir" eru ekki mín sérgrein.
Já, svo var náttúrlega Formúlan. Ég horfi nefnilega á Formúluna af einhverri undarlegri ástæðu sem ég hef aldrei getað útskýrt fyrir sjálfri mér, hvað þá öðrum. Ég veit ekki hvað það er í þessu sem hugsanlega gæti höfðað til hálffimmtugrar bílprófslausrar húsmóður. Þær sportgreinar sem ég er fáanleg til að horfa á skiptast gjarna í tvennt: a) Sérkennilegar íþróttir eins og súmóglíma og skíðaskotfimi (nei, ég ætla ekki að reyna að útskýra það heldur) og b) Íþróttir þar sem maður getur séð fáklædda vel vaxna karlmenn. Formúlukappakstur er hvorugt. Ég er samt ekki að vakna upp á nóttunni til að horfa á þetta þegar það er hinum megin á hnettinum (jú, ég var vakandi í fyrrinótt, en ég var ekki að horfa á sjónvarp). Reyndar var þetta orðið svo leiðinlegt í fyrra að ég ætlaði ekkert að horfa í ár, en það gæti breyst eftir keppnina í dag.
Svo koma líka svo mörg gullkorn frá íslensku umsjónarmönnunum. Tilvitnun dagsins (eftir minni og kannski ekki alveg orðrétt): ,,Webber er hér á heimavelli og því tregur til að hleypa fram úr ... (langt hik) ... þeim sem eru á eftir honum."
Nei annars. Tilvitnun dagsins er endirinn á skýringu Kólumbíumannsins Montoya á því hvers vegna hann klúðraði sigrinum úr höndum sér þegar hann snarsneri bílnum í brautinni: ,, ... basically, shit happens." Ég er að hugsa um að gera þetta að einkunnarorðum mínum. Einhvernveginn er það stundum þannig að þótt maður ströggli lengi við að finna skýringar á því sem miður fer í lífinu, þá er niðurstaðan á endanum þessi. Basically, shit happens.