Nokkrir ungir tenórar eru búnir að hreiðra um sig í stofunni minni en ég hef ekki áhyggjur af því, þeir eru á leið á árshátíð og koma ekki til með að trufla mig í kvöld. Ég smurði bara nokkrar snittur handa þeim og hvarf svo inn í dyngju mína. Svo ætla ég snemma í rúmið, það er að minnsta kosti planið en slík plön breytast stundum. Kannski sit ég og horfi á stríðsfréttir fram á nótt, ég á stundum erfitt með að sofna þegar ég veit af því það er verið að drepa fólk í útlöndum. Auðvitað er alltaf verið að drepa fólk einhvers staðar en það er nú einu sinni svo að fjölmiðlar heimsins hafa mismikinn áhuga á þeim málum eftir því hver er að drepa hvern og maður fréttir þessvegna ekki alltaf mikið af því.
Á svona stundum dreg ég stundum fram bók sem ég held alltaf dálítið upp á, ,,Anyone here been raped and speaks English?" eftir stríðsfréttaritarann Edward Behr. Titill bókarinnar er bein tilvitnun í fréttamann BBC, kölluð hvað eftir annað út í loftið á flugvelli í Kongó 1960, innan um þúsundir flóttakvenna og barna ,,in a stentorian but genteel BBC voice". Það gaf sig engin fram.