Ég fór að ná í Sauðargæruna á leikskólann hans í dag. Á litlu deildinni þar eru kannski tuttugu börn, að vísu meirihlutinn strákar. Fjórir þeirra heita Aron.
Mér hefur alltaf fundist Aronsnafnið með ljótari nöfnum (foreldrar og aðstandendur ungra Arona eru beðnir velvirðingar en mér finnst þetta bara). Ármann er að hvetja til þess að upp verði tekin ýmis gömul íslensk nöfn, þar á meðal góð og gild nöfn frá þjóðveldistímanum eins og Dufgus og Svarthöfði. Aron var líka til á þjóðveldistímanum - man ekki hvort það hefur lifað allar götur síðan eða var tekið upp aftur á 19. öld - en það get ég svarið að miklu frekar hefði ég látið efnafræðinemann heita Svarthöfða en Aron, ef ég hefði þurft að velja, og það þótt hann sé ljóshærður.
Ég sé að Ármann vill láta taka upp Skútunafnið, hefur ekki vitað af Helga Skútu og þeim feðgum. Annars rakst ég á þessa mynd af Skútunni og félögum á dögunum. Skútan er þriðji frá vinstri í efri röð. Þarna er líka Steingrímur Sigfússon með hár. Sítt.