Ég fékk þær fréttir áðan að nú væri búið að hafa upp á jólasögunni um fátæku börnin í Koti, sem ég var að spyrja eftir á jólaföstunni, og ég mundi líklega fá hana í hendur innan tíðar. Hún er eftir Bjarna Hafþór - það kom reyndar ekkert á óvart - og birtist á sínum tíma í Gambra.
,,Dronningen skal holde sig fra at løfte tunge ting de næste seks uger. Hun må gerne lave mad men skal holde sig fra at støvsuge og vaske gulv," segir í einhverju dönsku blaðanna um sjúkralegu drottningarinnar. Hinrik og Jóakim hljóta að geta séð um gólfin í sameiningu; danskir heimildarmenn mínir segja mér að Friðrik krónprins sé löglega afsakaður þar sem hann sé á Tasmaníu hjá kærustunni. Eða að taka þátt í siglingakeppni. Eða eitthvað.
Annars rakst ég á fyrirsögnina ,,Fogh slog Margrethe", hélt náttúrlega að forsætisráðherrann hefði verið að lúskra á drottningunni, eða allavega kjaftshöggað hana óvart, og smellti strax á fréttina í von um eitthvað verulega djúsí, en nei, þetta var tómt svindl - það var bara verið að segja frá því að það hefðu fleiri horft á nýársræðu Foghs en drottningarinnar.