Ég er nú ekki sú allra morgunhressasta sem um getur og þess vegna á ekki beinlínis við mig að rífa mig upp fyrir allar aldir á morgnana til að mæta í beina útsendingu í sjónvarpi með mat og alles. Í morgun vorum við þó með mat sem eldaður var í gærkvöldi og hitaður upp á staðnum - það var öllu þægilegra en þegar við vorum að kynna jólablaðið og ég vaknaði klukkan fjögur um nótt til að fara að steikja kalkúna.
Svo er ég búin að vera á þönum síðan ég kom aftur við að baka brauð - ég er að skrifa stóra grein um brauðbakstur fyrir febrúarblað Gestgjafans og við vorum að taka myndir fyrir hana. Ekki að brauðbakstur sé fyrirhafnarsamur en þetta voru þó einar sex eða sjö tegundir af brauðum þannig að það er fyrst núna sem ég get sest niður frá því fyrir klukkan sjö í morgun.
Síðast þegar við mættum þarna í morgunþáttinn hittist svo á að það var jólahlaðborð um kvöldið og ég var nú ekkert ofurhress þar, allavega ekki í stuði til að fara neitt á eftir. Núna er búið að ákveða að allt Gestgjafaliðið hittist á Vínbarnum í kvöld, ég á eftir að sjá hvað ég endist lengi. Ekki get ég þó komið með neinar samsæriskenningar um mannvonsku starfssystra minna, þær vöknuðu að minnsta kosti jafnsnemma og ég í morgun. Kannski sofnum við hver upp við öxlina á annarri þegar líða tekur á kvöldið.
Í millitíðinni getur reyndar verið að ég líti inn á afhendingu viðurkenningar Hagþenkis, fyrst Sverrir var svona hupplegur að bjóða mér. Ekki þarf ég allavega að flýta mér heim til að elda oní efnafræðistúdentinn, hann er að fara í einhverja svokallaða ,,vísindaferð" og óvíst hvenær hann kemur þaðan aftur.