Ekki skil ég þessa íþróttadellu sem hellist yfir besta fólk þegar minnst varir. Hérna ætlaði ég að nota tækifærið fyrst ég var veik heima og kíkja á Leiðarljós, gá hvað hefur gerst síðustu hundrað þættina eða svo, hver er að halda framhjá hverjum með hverjum og hver er að plotta á bak við hvern, hvaða dauðar manneskjur hafa lifnað við og hvaða fullorðin börn sem enginn hafði nokkurntíma vitað að væru til hefðu skyndilega birst - onei, þá er bara einhver fjandans boltaleikur. Og ekkert talað um nema bolta, fyrir og eftir fréttir. Og fullt af fólki sem getur varla um annað talað, jafnvel þótt mér sýnist á öllu að þetta hafi ekki verið neitt yfirmáta spennandi leikir.
Ég er náttúrlega fyrrverandi forseti Spornis, landssamtaka gegn íþróttabölinu, en samt eru alveg til íþróttir sem ég horfi á í sjónvarpi þótt ég sé ekkert að leggja mig sérstaklega eftir þeim. Ekki þó boltaíþróttir, sem mér finnst allar leiðinlegar með tölu. Nei, frekar íþróttir sem hafa ákveðið skemmtigildi, eins og súmóglíma og curling. Einu sinni var ég alveg til með að horfa á ýmsar íþróttagreinar sem bjóða upp á léttklædda vel vaxna stráka (þeir flottustu eru í tugþrautinni) en það hefur dregið úr áhuganum í seinni tíð, svona eftir að ég komst á þann aldur að ég gæti verið mamma margra þeirra.
Sök sér samt á meðan íþróttabölið raskar ekki sjónvarpsdagskránni verulega en mér skilst að það standi til á næstunni. Oh well, ég verð víst að sætta mig við það. Þegar allt kemur til alls get ég valið á milli yfir fjörutíu sjónvarsstöðva. Það getur ekki verið bolti á þeim öllum.