Þegar ég kom heim úr vinnunni á mánudaginn, eftir að hafa gengið í rúmar tuttugu mínútur í brunakulda, var ég orðin veik og var að deyja úr kulda þótt ég væri vel klædd. Ég fór í skósíða ullarslá utan yfir þykku peysuna mína og lagðist upp í sófa. Það dugði ekki og ég kallaði á efnafræðistúdentinn og bað hann um að koma með sæng. Enn skalf ég og bað hann nokkru síðar að bæta annarri sæng ofan á mig. Og dugði ekki til.
Á svona stundum langar mig stundum til að baka mig framan við arineld. (Hinn möguleikinn, sem dugir náttúrlega enn betur til að fá í sig hita, væri nakinn stæðilegur karlmaður en arineldurinn er örugglega minna vesen.) En því miður er ég ekki með arin og sé mér ekki fært að innrétta svoleiðs í íbúðinni. Ef það væri bara stemmningin en ekki hitinn sem ég væri að sækjast eftir, þá gæti ég svosem keypt mér vídeóspólu með mynd af logandi arineldi og spilað hana þegar ég vil hafa það kósí. Og ef ég er alveg desperat, þá mætti prófa þetta hérna.