Þessa stundina er ég öll í skringilegheitum og þess vegna fór ég að skoða blóðflokkamataræði hjá Bergmannhjónunum. Ekki að ég ætli að fara að ástunda neitt slíkt, ég hef aldrei á ævinni farið í matarkúr af nokkru tagi og ef ég skyldi einhvern tíma byrja á slíku, þá er nú sennilegt að ég færi eftir öðru en blóðflokkum. En allt um það, ég fór samt að lesa mér til um hvað ég ætti að borða samkvæmt mínum blóðflokki.
Þetta byrjar ágætlega, með ávöxtum og hlynsírópi í morgunmat, og svo kemur salat með laxi í hádeginu. Allt í lagi, þótt ég sé skeptísk á gulróta- og gúrkusafann sem á að drekka með. Jafnvel hrískökurnar sem á að borða milli mála væru í lagi ef ég mætti sleppa sojasmjörinu. Nafnið eitt vekur hroll. En svo kemur kvöldmaturinn. Tófú. Ég hata tófú. Í morgumatinn daginn eftir er ,,hræra úr silken-tófú" og á næstu dögum á að vera ,,grænmetissúpa með soja-parmesanosti, 1 sneið speltbrauð með bræddum sojaosti" og rúsínan í pylsuendanum: ,,tófú "franskar"". Sko, ég hef ekkert á móti grænmetisfæði og þaðanafsíður grænmetisætum (með vissum undantekningum). En ég hef á móti tófúi. Sem er greinilega ríkur þáttur í mataræðinu ef maður er í A-blóðflokki. Það er tófúflokkurinn. Hmmpf.
Samt er þetta hátíð hjá drykkjunum sem ég ætti að drekka. Ristað möndlukaffi með möndlumjólk. Vanillu-hnetukaffi með hrísgrjónamjólk og ísmolum. Fenugreek-te með ísmolum (fenugreek er í lagi í karríréttum. Ekki til að drekka með hádegismatnum). Jóhannesjurtarte (voddefokk?? mundi efnafræðistúdentinn senilega segja). Kanilkaffi. Nei, má ég þá frekar biðja um gulan Braga. Eða jafnvel skólpið sem við drekkum í vinnunni.