Eldfjallið byrjaði tíunda árið (hún átti afmæli í gær) með því að fá dularfullan kvilla sem nefnist bleikjuhreistur og var örugglega ekki til þegar ég var ung. Það er að segja, það var örugglega ekki minnst á þennan kvilla í bókinni Undir gunnfána lífsins, sem ég og ýmsir aðrir sem voru að alast upp laust eftir miðja síðustu öld hafa alla sína undirstöðuþekkingu í læknavísindum úr. Það er til þekkt amerísk bók sem heitir, ef ég man rétt, Everything I know I learned in kindergarten, eða eitthvað ámóta. Ég skal ekki segja um það en allt sem ég veit um hjartakveisu, beriberi, beinkröm, sykursýki, sýfilis, barnsfarasótt og fjölda annarra sjúkdóma, það vissi ég áður en ég varð tíu ára. En þar var sumsé ekki minnst á bleikjuhreistur, enda mun þetta ekki vera einn af alvarlegri sjúkdómum mannsins.