Perukryddbrauð
Og hér er hin kakan. Bökunartíminn er enn meiri óvissuþáttur hér því það fór öryggi í miðju kafi (ég þarf virkilega að fara að gera eitthvað í þessu) og ég tók ekki eftir því strax. En ofninn var enn vel heitur þegar það uppgötvaðist og ég átti öryggi. Þarf að fara í Brynju á morgun ...
Það er fámennt en góðmennt í vinnunni. En það gekk samt vel á kökurnar þegar ég mætti með þær í morgun.
Perukryddkaka
3 perur
425 g hveiti
85 g hafragrjón
3½ tsk lyftiduft
2 ½ tsk kanell
½ tsk negull
½ tsk salt
125 g púðursykur
4 egg
300 g grísk jógúrt eða hreint skyr
100 ml matarolía
50 g valhnetukjarnar, grófmuldir (má sleppa eða nota meira)
Ofninn hitaður í 160°C. Perurnar flysjaðar, kjarnhreinsaðar og skornar í fremur litla bita. Hveiti, hafragrjónum, lyftidufti, kanel, negul, sakti og púðursykri blandað vel saman og síðan er eggjum, jógúrt og olíu hrært saman við – best að hræra ekki meira en þarf til að allt blandist vel saman. Að lokum er perum og hnetum blandað saman við. Sett í fremur stórt jólakökuform og bakað neðarlega í ofni í … tja … 1½ klst? Best að stinga í miðja kökuna með prjóni, ef hann kemur hreinn út er hún tilbúin. Látin kólna í forminu.