Peruostakaka
Það gleymdist að minnka pöntunina hjá Ávaxtabílnum á meðan flestir eru í sumarfríi í vinnunni svo að það var til dobía af perum. Frekar litlum, þéttum, rauðleitum og krúttlegum. Ég man ekki fyrir víst hvað tegundin heitir. En allavega var ég send með þær heim að baka úr þeim.
Ég bakaði tvær sortir og hér er önnur. Þetta er bökuð ostakaka og í sjálfu sér má nota ýmiss konar ávexti og bragðbæta fyllinguna á ýmsan hátt. Venjulega mundi ég nota 600 g af rjómaosti en ég átti ekki meira svo þetta varð að duga - og gerði það alveg.
Bökunartíminn er svolítið óviss, sá sem ég gef upp hér ætti að passa fyrir venjulegt springform en það sem ég notaði er stærra og því verður kakan þynnri og bökunartíminn heldur styttri (eða kakan verður dálítið dökk á jöðrunum).
Peruostakaka
5-6 perur
200 g Homeblest (eða annað kex)
50 g smjör, lint
400 g rjómaostur, mjúkur
200 g sýrður rjómi
4 egg
100 g sykur, eða eftir smekk
korn úr 1 vanillustöng eða 1 msk vanillusykur
Ofninn hitaður í 160°C. Perurnar flysjaðar, helmingaðar og síðan kjarnstungnar (best að nota kúlujárn (melónujárn) en það má líka nota teskeið). Kexið grófmulið og síðan sett í matvinnsluvél ásamt smjörinu og hún látin ganga þar til það er orðið að mylsnu. Hellt á botninn á smelluformi og þrýst niður. Perunum raðað ofan á með skurðflötinn niður. Rjómaostur, sýrður rjómi, egg, sykur og vanilla hrært saman þar til blandan er slétt. Hellt yfir perurnar. Bakað í um 1 klst, eða þar til fyllingin er stífnuð við jaðrana en dúar enn svolítið í miðjunni. Þá er slökkt á ofninum, hann hafður hálfopinn og kakan látin kólna í honum í um hálftíma áður en hún er tekin út. Látin kólna alveg (í ísskáp) áður en hún er losuð úr forminu.