Góðærisgulltertan
Ég las það í Mannlífi á miðvikudaginn var (áður en blaðið kom í búðir, ég fékk það við afhendingu Gaddakylfunnar) að hátindur útrásarinnar hefði verið í boðsferð Landsbankans til Mílanó, þegar boðsgestir átu gullskreytt rísottó í einhverjum ítölskum kastala.
Ég lét mér fátt um finnast, bakaði súkkulaðiköku um kvöldið þegar ég var búin að hlusta á Einar Kára flytja Sturlungu af mikilli frásagnarlist og segja meðal annars frá útrásarvíkingum þrettándu aldar og sérlega glæsilegum veislum þeirra, og skreytti hana með blaðgullsflögum sem ég átti til síðan löngu fyrir bankahrun. Fyrir góðæri, held ég jafnvel, því þær eru drjúgar og svosem ekki oft notaðar. Og enn til afgangur.
Fór svo með hana í vinnuna morguninn eftir. Því að á Forlaginu er svo mikið góðæri að þar er borðað gull með kaffinu á fimmtudagsmorgni.
Gullskreyttar tertur geta verið ágætlega girnilegar og fallegar og hið sama er að segja um ís, eftirrétti og konfekt (sem er það sem ég hef notað mitt gullskraut á, það var keypt í Magasín í Kaupmannahöfn frekar en Illum og kostaði 19,95 krónur danskar á mun betra gengi en nú). Veit ekki með rísottó þó. Mér finnst þetta hér allavega ekkert sérlega girnilegt. Þótt þarna sé heilt gullblað.