Þorskurinn yfirburðasigurvegari - og þriðja lota
Jæja, hérmeð lýsi ég því yfir að annarri lotu í smekkkeppninni miklu er lokið og úrslitin urðu mun tvísýnni en í þeirri fyrri – sumstaðar að minnsta kosti. Þorskurinn rótburstaði að vísu ýsuna og munurinn varð reyndar töluvert meiri en ég hélt fyrirfram. Ýsa – eins góð og hún getur nú verið þegar hún er góð – er greinilega ekki lengur Fiskurinn með stórum staf.
Eins var enginn vafi um hörpuskelfisk og krækling þótt kræklingsvinum færi reyndar fjölgandi. Hver veit nema það breytist með vaxandi kræklingaeldi – var það þingmál annars til lykta leitt?
Öðru máli gegndi um hina flokkana. Folaldið rétt marði kálfinn með eins atkvæðis mun – en ef atkvæði hefðu fallið jafnt hefði ég greitt atkvæði (sem ég geri annars ekki) og þótt ég sé alin upp í sveit og hlakkaði alltaf til þegar litlu sætu kálfunum yrði slátrað (og það voru alvöru mjólkurkálfar), þá var það ekki út af kjötinu svo að ég hefði kosið folaldið.
Og gæsin tók glæsilegan lokasprett og flaug fram úr rjúpunni. Þannig að úrslitin eru:
Kálfur 24
Folald 25
Gæs 24
Rjúpa 20
Hörpuskel 31
Kræklingur 12
Ýsa 12
Þorskur 36
og folald, gæs, hörpuskel og þorskur fara í aðra umferð.
Þá er það þriðja lota:
Lamb og svín: Miðað við lambakjötsást Íslendinga má kannski búast við að þetta verði ójafn leikur og þess vegna er allt í lagi að hafa saltað og reykt svínakjöt með (og réttlætisins vegna þá einnig hangikjöt); síðast þegar ég vissi borðuðu víst 60% Íslendinga hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld svo að eitthvað hlýtur fólk að sjá í honum (hér skína fordómar mínir í gegn).
Hrefna gegn svartfugli (lundi meðtalinn): Hér segja sjálfsagt ýmsir pass. Ég lifði á þessu tvennu Breiðholtsveturinn minn svo að ég verð fullfær um að greiða úrskurðaratkvæði ef til þess kemur ...
Lax gegn silungi: Hér má ganga út frá hvort heldur er villtum fiski eða eldisfiski og þeim silungi sem fólk hefur mest dálæti á. Sjálf mundi ég miða við sjóbleikju úr Hornafirði sem ég fékk einu sinni fyrir löngu.
Lúða versus saltfiskur: Saltfiskurinn er náttúrlega hálfgert svindl, ég veit það. En ég vil samt hafa hann og held hann fái verðugan andstæðing í lúðunni.
Og kjósið svo!