Hitafundur
Það var ansi heitt á fundinum. Utan sem innan. Fólki var heitt í hamsi en það var ekki heitt í kolunum, ekki í þeirri merkingu að fólk væri ósammála. Nei, þvert á móti voru allir mjög sammála. En það var skolli heitt. Anarkistunum þremur sem stóðu beint fyrir framan mig var svo heitt að þeir fóru að fækka fötum, fara úr svörtu úlpunum og rekja treflana utanaf hálsinum. Tóku samt ekki ofan grímurnar. Þeir reyndu dálítið að öskra frammí en þegar þeir voru búnir að hlusta á gamla aðgerðarsinna eins og Mörð og Pétur Tyrfings held ég að þeir hafi kannski verið farnir að átta sig á því að þeir höfðu ekki svo margt að öskra yfir. Allir fundarmenn voru held ég innilega sammála um að ríkisstjórnin væri vanhæf.
-Það er alltof heitt, ég er farinn, tilkynnti yfiranarkistinn og fór og hinir á eftir.
If you can't stand the heat, get out of the kitchen, datt mér í hug og fór hvergi. Enda búin að standa í sjóðheitu eldhúsi og elda á fullu í allan dag.