Jólaendurtekning
Þegar ég var að segja frá Þorláksmessuboðinu mínu hér seint að kvöldi Þorláksmessu var ég nærri búin að nota það orðalag að þeir sem komu hlytu að hafa tekið óvenju hraustlega til matar síns því afgangar væru með minnsta móti - en hætti af einhverri ástæðu við að orða þetta svona og skrifaði að gestirnir hefðu kannski verið svengru en venjulega því það væru ekki miklir afgangar.
Svo sé ég núna að ég hef notað fyrra orðalagið þegar ég skrifaði um Þorláksmessuboðið í hitteðfyrra (sem sýnir líka hvað minnið er farið að bila því ég mundi ekkert eftir því að þá voru líka frekar litlir afgangar). En það var allavga ágætt að ég breytti orðalaginu, annars væri ég farin að endurtaka sjálfa mig óþægilega mikið.
Samt ekki svona mikið.
En hvað eru jólin svosem annað en endurtekning á sjálfum sér?
Annars er ég búin að hafa það afskaplega gott þessi jólin. Rólegheit, bókalestur, sjónvarpsgláp, nethangs, barnabörnin komu á náttfötunum í mat, sjálf var ég á náttfötunum í gær alveg þangað til ég klæddi mig uppá fyrir kvöldmatarboð - en nú þarf ég líklega að fara að rífa mig upp úr þessu og klára að skrifa eins og eina bók.