Ofskreytt jólatré
Jólatréð mitt er óvenju vel skreytt í ár. Eins og ég hef áreiðanlega sagt frá áður ríkir hér sú hefð að áður en gestir koma á Þorláksmessu er jólatréð sett upp og ljósin á það en svo er karfan með öllu skrautinu sett hjá því og tilfallandi börn mega skreyta það að lyst.
Mér leist reyndar ekkert á ástandið í ár, lengi vel komu bara engin börn (allavega engin sem mundu vilja vera talin til slíkra, eða höfðu minnsta áhuga á jólatrésskreytingum) og þegar Sauðargæran loksins birtist vildi hann bara spila tölvuleik með jafnöldru sinni sem kom um sama leyti. En nokkru síðar hófst hann handa í félagi við yngri frænda sinn og þegar upp var staðið höfðu þónokkrir ungir drengir tekið þátt í skreytiverkinu. Og það var komið skraut á hverja grein og rúmlega það. Og nærri allt skraut búið úr körfunni, sem ekki hefur gerst mjög lengi, ef nokkurntíma, því það er úr töluverðu að velja.
Ég hef nú stundum lagfært skreytingarnar daginn eftir, til dæmis ef þær hafa allar verið öðrumegin á trénu neðarlega, sem vill brenna við ef skreytimeistararnir eru stuttir í annan endann. En ég geri það ekki núna.
Og svo lagaðist ballansinn á trénu aðeins og það rétti sig ögn af. Er aðeins meira streit.
(Já, og undarlegi ljósaskúlptúrinn við fótinn á trénu er sá hluti seríunnar sem ég gafst upp á að greiða úr.)
Gleðileg jól, öllsömul.