Skyldu þeir róa ...
Þegar ég las fyrirsögnina á blogginu hjá Stefáni áðan rifjaðist upp fyrir mér sagan af Lalla Run þegar hann var eitt sinn staddur í New York einhverntíma upp úr miðri síðustu öld, ekki veit ég hverra erinda því Lalli var tillukarl af Króknum en enginn útrásarvíkingur. Nema þar sem Lalli er þarna á gangi á Manhattan verður honum litið upp á milli skýjakljúfanna og sér að himinninn er heiðskír og blíðviðri hið mesta. Þá hvarflaði hugurinn heim og Lalla varð að orði:
,,Skyldu þeir róa á Krók í dag?"
Það var nú eitthvað hlegið að þessu. En svona hefðu fleiri mátt hugsa, hefðu betur verið með hugann við heimabyggðina og hennar hag í stað þess að láta útlendu hallirnar rugla sjónarhornið.