Kortakvittanir
Ókei, ég er enn grútfúl út í Visa og það er ekkert að fara að breytast á næstunni. En ég fékk nýtt kort sent í fyrradag. Barnabarnið var hjá mér og ég rétti henni gamla kortið og bað hana að klippa það fyrir mig. Hún vakti þá athygli mína á því að ég hefði aldrei skrifað nafnið mitt á það. Sem var alveg rétt hjá henni, það hafði ég víst aldrei gert - og aldrei verið gerð nein athugasemd við það, hvorki hérlendis né erlendis, nema hvað mig minnir reyndar að það hafi einu sinni verið nefnt í íslenskri verslun.
Þannig að ég er að velta því fyrir mér, til hvers er þessi reitur fyrir nafnið aftan á kortinu ef hann skiptir svo engu máli? Ég man reyndar að undirskriftin á kortinu var oftar en ekki borin saman við kvittunina í verslunum erlendis hér áður fyrr, áður en maður þurfti að fara að slá inn PIN-númer (ég þurfti einu sinni að skrifa nafnið mitt aftur á kvittun af því að undirritunin var ekki nógu lík þeirri á kortinu) en síðustu árin hefur það ekki verið gert. Og varla nokkurntíma hérlendis. Skiptir þetta einhverju máli?
Og nei, ég er ekki búin að skrifa nafnið mitt aftan á nýja kortið ennþá.