Þýskir klæðskiptingar, stærðfræði og vöfflur
Þegar ég kom heim áðan sátu tveir afkomendur mínir í stofunni með dregið fyrir alla glugga og grúfðu sig hvort yfir sína fartölvuna en sjónvarpið var stillt á þýska stöð þar sem var verið að sýna einhverja mynd um klæðskiptinga. Eða allavega var tveggja metra pallíettukjólklæddur klæðskiptingur mjög áberandi á skjánum. Ég fékk engan botn í það af hverju var stillt á þessa stöð þar sem bæði sóru af sér áhuga á klæðskiptingunum og hvorugt státar af mikilli þýskukunnáttu.
Þau sögðust vera búin með dagskammtinn af stærðfræðinámi/kennslu sem þau höfðu fengið borðstofuna til að sinna. Ég bakaði vöfflur handa þeim til að verðlauna þau fyrir dugnaðinn. Með rjóma, sultu og súkkulaðisósu. Þær voru fljótar að hverfa.
Annað þeirra bauð fram hjálp hins við vöfflugerðina en að sjálfsögðu ekki sína eigin. Þeir sem til þekkja mega geta hvort þeirra það var ...