Alvöru kreppumatur
Ég steikti lifrarbuff í kvöldmatinn. Það er sko alvöru kreppumatur, ætli skammtur fyrir 4 kosti ekki svona 300 krónur? Jú, svo þarf náttúrlega meðlæti, t.d. soðnar kartöflur eða kartöflustöppu og mér þykir gott að hafa með þessu sýrðar gúrkur og rauðrófur og svo sultu - en það er líka hægt að hafa t.d. salat. Jú, og svo vilja líklega einhverjir hafa sósu. - En það er líka tilvalið að búa til stóran skammt (eða venjulegan skammt ef maður er einbúi) og frysta buffin - passa bara að frysta þau þannig að þau frjósi ekki saman, þá er hægt að taka eins mörg buff og þarf hverju sinni og þíða.
Svo er líka oft hægt að fá fólk sem ekki vill lifur til að borða lifrarbuff ...
Lifrarbuff
600 g lambalifur
250 g kartöflur, hráar
1 stór laukur
1-2 hvítlauksgeirar (má sleppa)
1/2 tsk timjan, þurrkað, eða blöð af nokkrum ferskum greinum
1 tsk paprikuduft
pipar (góður slatti)
salt
1 egg
hveiti eftir þörfum (ca. 100 g líklega)
olía til steikingar
Lifrin hreinsuð og skorin í bita. Kartöflurnar skornar í bita (ég afhýddi þær ekki) og laukurinn einnig. Kartöflur, laukur og hvítlaukur sett í matvinnsluvél og hún látin ganga þar til þetta er mjög smátt saxað og þá eru lifrarbitarnir settir út í og vélin látin ganga áfram þar til allt er orðið að mauki. Kryddi og eggi hrært saman við og síðan hveiti (best að nota púlshnappinn á vélinni) þar til blandan er þykkfljótandi. Olían hituð og lítil sletta af maukinu steikt til að athuga hvort kryddunin er rétt. Síðan er maukið sett á pönnuna með stórri skeið og buffin steikt í 3-4 mínútur á hvorri hlið við meðalhita.