Kynding í kuldatíð
Það er kalt í dag og kuldaleg spáin. Ég skrúfaði frá síðasta ofninum í íbúðinni áðan, þetta er ágætlega hlý og einangruð íbúð og ég hef venjulega alveg skrúfað fyrir þá á sumrin og fram eftir hausti. Hef svo verið að skrúfa frá þeim einum af öðrum að undanförnu og endaði á vinnuherberginu, sem sýnir náttúrlega að ég hef ekki verið að vinna mikið heima síðustu dagana. Það breytist á næstunni, nóg verkefni framundan.
Og maður ætti kannski að fara í Pollýönnuleik og vera þakklátur fyrir að hafa þó jarðhitann svo að maður þarf ekki að spara tiltakanlega við sig kyndinguna; ég man ekki hvað talið var að mörg bresk gamalmenni hefðu hreinlega króknað úr kulda síðast þegar þar var kaldur vetur af því að þau höfðu ekki efni á að kynda íbúðirnar. Það kemur þó varla til hér, nema kannski þar sem fólk býr í mjög lélegu húsnæði. - Ég svaf nokkrum sinnum nótt og nótt í óupphituðum húsum um hávetur þegar ég var yngri, það var ekkert sérlega gaman.
En ég er engin Pollýanna.