Kusk á hvítflibbanum
Fjandans sólin fór allt í einu að skína beint á sjónvarpsskjáinn svo að ég sá allt rykið og þurfti að standa upp og þurrka af honum. Og þurrkaði þá auðvitað af sjónvarpinu og sjónvarpsskápnum í leiðinni og gott ef ekki fleiru líka.
Eins gott að hún nær ekki að skína á tölvuskjáinn. Þá hefði ég líklega nóg að gera það sem eftir er dagsins.
En svei mér ef myndin í sjónvarpinu batnaði ekki marktækt. Ég hef einmitt verið að hugsa um það að undanförnu hvað sumir virðulegir menn hafa verið eitthvað þokukenndir og óskýrir á skjánum. Hélt það væri bara almennt kreppuástand og rugl en skýringin er kannski önnur.
Nema það gildir þó varla um svörin sem þeir gefa við spurningum.