Egypskir skvass-spilarar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
Þegar ég var úti á Ítalíu á dögunum var maður náttúrlega að reyna að fá einhverjar fréttir af hruninu heima en það gekk ekki alltaf vel (og eftir á að hyggja er ég bara afskaplega ánægð með að hafa verið úti og misst af mestöllu ruglinu - nóg hefur það verið síðan). En allavega, bæði á hótelinu í Róm og Siena var eina enskumælandi sjónvarpsstöðin sem ég gat séð á herberginu CNN - BBC World News átti reyndar að vera á báðum stöðum en var ekki.
Það var nú ekki mikið sem maður sá um ástandið á CNN - aðallega bannerar á skjánum um Iceland on the brink of bankrupcy og Iceland to get 4,5 bn loan from Russia og eitthvað slíkt, myndir af manni í hríðarveðri og öðrum að taka út úr hraðbanka í Austurstræti og fólk í Bláa lóninu. - Jú, og eitt viðtal við Iceland's Prime Minister Jeir Harde.
En ég var samt meira og minna með kveikt á sjónvarpinu þegar ég var uppi á herberginu og þá komst ég að því sem ég hafði eiginlega ekki vitað áður af því að ég horfi aldrei á CNN, hvað þetta er nú vond sjónvarpsstöð eiginlega. Ég sá til dæmis hálftíma þátt um egypska skvass-spilara ekki sjaldnar en fimm sinnum. Og álíka langan þátt um líbanska blúsarann Otis Grand að minnsta kosti þrisvar. Og - ja, eiginlega ákaflega fátt annað.
Nú veit ég allt sem mig gæti hugsanlega mögulega nokkru sinni langað að vita um egypska skvass-leikara og líbanska blúsara.
Ég væri aftur á móti alveg til í að vita mun meira um efnahagsástandið á Íslandi og samningana við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og það allt. Þótt ég sé löngu komin heim.