Aukapeningur, kleinur og Lögreglukór
Það ágæta appírat Bókasafnssjóður höfunda bjargaði óvænt mánaðamótunum fyrir mig. Manni leggst alltaf eitthvað til. Reyndar tekst mér alltaf að gleyma tilvist þessa sjóðs frá ári til árs svo að greiðslur úr honum virka alltaf eins og dálítill happdrættisvinningur. Ég er að hugsa um að reyna að halda því áfram.
Annars er Arnaldur að koma út á morgun, lögreglukórinn syngur í Eymundsson og það verður boðið upp á kaffi og kleinur. Mjög Erlendskt en að vísu hefði eitthvað í tandooristíl kannski passað betur í þessu tilviki. Þetta er klukkan fjögur, tilvalið að mæta í framhaldi af mótmælafundinum á Austurvelli.