Meira um sósarlit
Í framhaldi af spurningu í kommentum við færsluna hér að neðan (spurningin alveg ótengd efni færslunnar), þá fletti ég upp í Nýju matreiðslubókinni, sem er eiginlega gamla húsmæðraskólakennslubókin hennar mömmu, og þar er uppskriftin að sósulit einhvernveginn svona:
250 g sykur, nýtt kjötsoð. Sykurinn brúnaður þar til hann er mjög dökkur, soðinu hellt út í (það væri örugglega best að hafa það sjóðheitt) og látið sjóða þar til lögurinn fer að þykkna dálítið, þá er hann kældur og settur á flöskur. Svo fylgir viðvörun um að nota lítið af litnum því hann sé sætur - en ég hugsa reyndar að þegar sykurinn er svona brenndur sé sætubragðið farið að minnka töluvert.
Þannig að það ætti að vera hægt að búa sósulit til hvar sem er í heiminum - sykurtegundin skiptir ekki höfuðmáli eins og áður hefur verið nefnt.