Silfur Egils og hreina tauið
Ég held ég hafi nefnt það áður hvað Silfur Egils er frábær þáttur þegar maður er að strauja. Á sunnudögum þegar hilla fer undir Silfur dreg ég straubrettið inn í stofu, fylli gufustraujárinið af vatni og næ í fullan bala af hreinu taui. Og svo strauja ég og fylgist með gagnmerkum umræðum um efnahagsmál og stjórnmál og hvaðeina.
Smellpassar, og ég sakna Silfursins á sumrin. En þá er reyndar minna að strauja hvorteðer.
En nú hafði ekki verið Silfur langalengi og ég missti af því á sunnudaginn var horfði ég á barnabarnið verða Íslandsmeistara og ef Silfrið var byrjað á sunnudaginn þar á undan missti ég af því líka, örugglega af einhverri álíka gildri ástæðu. Þannig að það var komin risahrúga af þvotti og Silfrið dugði ekki nema fyrir helminginn og þá þurfti ég að skipta yfir á Vem vet mest í sænska sjónvarpinu, sem er reyndar skemmtilegri þáttur en Silfrið en tekur til sín mun meiri athygli. Svo að ég er enn ekki búin með strauninguna - reyndar eru bara stórir borðdúkar eftir en þeir eru tímafrekir.
Ég mundi styðja það að Silfrið yrði lengt í annan endann ef tauhrúgan mín væri alltaf svona mikil. En þetta var nú undantekning.