Ein í steik
Ég fór í búð áðan og keypti slatta og merkilegt nokk held ég bara að allt hafi kostað það sama á kassanum og í hillunni. Því á maður ekki að venjast á þessum síðustu og verstu tímum.
Ég ætla að vera góð við sjálfa mig og elda mér ribeye-steik með nýjum kartöflum, kastaníusveppum og rauðvíns-púrtvínssósu. Þótt ég sé ein í mat. Hugsa þó að ég sleppi bæði forrétti og eftirrétti.
Sneiðin er reyndar fullstór en ætli ég verði í vandræðum með að gera eitthvað úr afganginum á morgun. Ég á til dæmis þessa fínu afgangamatreiðslubók sem Gunna systir færði mér á dögunum. Örugglega hægt að grípa til hennar.
Eða búa bara til steikarsalat.