Nautasteik eða bjúgu - innræti barnabarnanna í hnotskurn
Ég fékk tvo unga menn í mat í gærkvöld - upphaflega átti einkasonurinn að koma einn, svo hringdi hann og spurði hvort hann mætti koma með tvo vini sína, ég hélt það nú, en annar datt svo úr skaftinu.
Sauðargæran var með mér þegar ég fór að versla; ég spurði hann hvað ég ætti að gefa frænda hans að borða og hann var harður á að ég ætti að kaupa stóra nautasteik. -Það finnst Hjalta gott, sagði hann. Sem er rétt. Sýndi þarna hvað innrætið er ólíkt og hjá systur hans, sem ævinlega leggur til þegar hún er spurð sömu spurningar að móðurbróðirinn verði fóðraður á bjúgum. Sem hún veit að hann borðar ekki.
En frændinn er náttúrlega nýbúinn að vera að lána honum Star Wars-myndirnar og fleira spennandi. Gæti spilað inn í en Sauðargæran er reyndar yfirleitt heldur jákvæður í tillögum þegar systir hans er hvergi nálægt.
Það var hins vegar ekki til nautasteik í Bónus svo að ég keypti lambafillet. Maríneraði það í olíu, sítrónuberki, rósmaríni og timjani og grillaði það svo. Bar það fram með soðnum, nýjum kartöflum og ofnbökuðu grænmeti (butternut-kúrbít, svartrót, gulrótum og rauðlauk) og einhverjum salatblöðum. Ansi gott bara. Á undan fengum við snöggsteiktar tígrisrækjur kryddaðar með Spice Route-kryddblöndu, snöggsteikta tómata og vorlauk.
Það kláraðist allt nema grænmetið (einkasonurinn var frekar ónýtur við það og ófáanlegur til að smakka á svartrótinni), sem verður líklega maukað og notað í súpu á eftir. Kryddaða með karríi og kummini og ætli ég baki ekki smjördeigshorn með parmesanosti til að hafa með. Afganginn af kartöflunum borðaði ég reyndar í hádeginu, skar í sneiðar og steikti í örlítilli olíu ásamt tveimur eggjum. Kryddað með miklum pipar. Það var hreint ekki slæmt.