Svefngræjan og Frankenstein
Æjá, ég hef alveg gleymt að gefa skýrslu um svefngræjuna mína, sem ég er núna búin að nota í nærri þrjár vikur.Búin að fara með hana til London og allt. Hún bara svínvirkar. Ég vandist grímunni mjög fljótt og finn varla fyrir henni lengur, Sef eiginlega eins og steinn alla nóttina, hætti aldrei að anda (mér vitanlega) en það kom fram í mælingunni sem gerð var á mér að lengsta öndunarstoppið var ef ég man rétt 27 sekúndur. Ég vakna kannski einu sinni eða tvisvar á nóttu en sofna strax aftur. Áður en ég fékk hana var ég alltaf að vakna. Ekki skrítið ef ég var stöðugt að kafna.
Það kemur ennþá fyrir að ég geispa á kvöldin en ég hef ekki sofnað fyrir framan sjónvarpið í eitt einasta skipti og missi aldrei af því hver er morðinginn. Er ekki sífellt þreytt. Ég er líka viss um að ég mundi ekkert sofna undir stýri ef ég keyrði bíl. Áður ... nja, áður hefði ég líklega verið löngu dauð í bílslysi.
Eitt sem kemur mér á óvart er að ég finn miklu minna fyrir stirðleika á morgnana. Ég man ekki hvort ég hef einhverntíma talað um það en ég var orðin svo slæm að þegar ég fór framúr á morgnana og skjögraði fram á bað hef ég sennilega verið eins og Frankensteinskrímslið að staulast fyrstu skrefin eftir uppvakninguna. Svipað var það þegar ég stóð upp eftir að hafa setið kyrr um tíma.
Ég ætla ekki að segja að ég spretti upp eins og stálfjöður um leið og ég vakna núna, neinei, en ég er miklu liðugri. Jæja, miklu minna stirð er líklega heppilegra orðalag. Ekki eins og Frankensteinskrímslið allavega. Meira eins og Gosi áður en hann varð alvörudrengur eða eitthvað svoleiðis.
Allavega, svefngríman og blásturstækið eru alveg að gera sig. Og raninn sem tengir þau saman er ekkert að þvælast fyrir mér. Barnabörnin hafa að vísu ekki viljað gista síðan ég fékk þetta ...
En byrjunin lofar góðu.