Fámennt á forlaginu
Það er frekar fámennt hérna núna, við vorum átta í föstudagskaffinu í morgun en venjulega komast ekki allir fyrir við borðið í kaffistofunni. Í næstu viku verð ég líklega meira og minna ein hérna ritstjórnarmegin.
En bækurnar eru nú meira og minna að verða tilbúnar í prentsmiðju, ein af annarri, eða jafnvel farnar og komnar aftur. Nema auðvitað eru höfundar misröskir að skila af sér eins og gengur.
Matreiðslubókin sem ég hef verið að vinna í er tilbúin, fer í prentun eftir helgi. Svo er í næstu viku von á endurprentunum á þremur af mínum bókum (Maturinn okkar, Cool cuisine og Cool dishes) sem er þó meira og minna sama bókin í mismunandi formi. Maturinn okkar seldist upp fyrir jól og hefur verið töluvert spurt eftir henni, hinar tvær voru endurprentaðar í fyrra og aftur núna svo að ég get ekki kvartað.
En svo er ég að undirbúa skemmtilega hluti sem kannski sjá dagsins ljós á næsta ári.