Hvítasunnumáltíðin
Ætli ég verði ekki að druslast í Ríkið og kaupa eitthvert þokkalegt rauðvín sem er samt ekki dýrara en svo að ég tími því í afkomendurna. Svona til að geta gefið þeim eitthvað með hvítasunnusteikinni. Sem ég þarf reyndar að ákveða í leiðinni hver verður; var hálfpartinn að hugsa mér að setja lambalæri á grillið en veðurspáin er ekkert voðalega hvetjandi til þess. Þannig að kannski nota ég bara eitthvað sem ég á í frysti. Þar er allavega allt vaðandi í fiðurfénaði; andabringur og stokkendur og kornhænur og eitthvað fleira. Svo er örugglega eitthvað til í einn eða tvo forrétti.
En það er til nóg af forrétta- og eftirréttavínum í vínskápnum. Og nóg í forrétti og jafnvel eftirrétti í frystinum ef því er að skipta. Þannig að eiginlega er það bara rauðvínið sem mig vantar. Og kannski eitthvert meðlæti.
Velti því fyrir mér í strætó á eftir. Það er fínt að hugsa upp matseðla í strætó. Geri það oft.
Ég man í fljótu bragði ekki eftir neinum hvítasunnumatarhefðum, er eitthvert ykkar með einhverjar slíkar í gangi?