London með hvítvíni
Alltaf gott að koma til London. Ég tala nú ekki um með góðu fólki; eyða nokkrum dögum með vinkonum sem maður er búinn að þekkja í bráðum 35 ár, spjalla, hlæja, rölta, skoða, versla, fá sér hvítvínsglas (nema ég lýsti því yfir í gær að ég væri búin að fá leið á þessu helvítis hvítvíni) og síðast en ekki síst borða góðan mat. Toppurinn á ferðinni var frábær sælkerakvöldverður á Texture í gær - meira um það seinna.
Annars er víst óhætt að segja að við vinkonurnar þekkjum London misvel. Ein okkar kemur þangað oft á ári en önnur kom seinast til London 1968 og þá sjóleiðina með Gullfossi ...
Ég ætlaði ekki að kaupa mikið en stóð náttúrlega ekki við það; kom með bunka af níðþungum matreiðslubókum (ein þeirra er tvö kíló og sumar hinna ekki mikið léttari) og slatta af fötum (en ég var jú að fata mig upp fyrir næsta ferðalag). Já, og smávegis af eldhúsdippidúttum.
En þetta var gaman.