Aldursgreining með lárviðarlaufi
Þegar ég var að kasta nokkrum lárviðarlaufum áðan út í pottinn með reykta folaldakjötinu sem á að vera í kvöldmatinn (með sætri kartöflustöppu, spergilkáli, rófum og ljósri grænmetissósu), þá mundi ég eftir því sem var fullyrt við mig um daginn: Að það væri hægt að aldursgreina fólk eftir því hvort það notaði lárviðarlauf. Eða ætti þau yfirleitt til í eldhúsinu.
Ég hef satt að segja aldrei hugsað út í þetta því að ég kæmist ekki af án lárviðarlaufanna sem ég geymi í minni sérlegu lárviðarlaufskrukku (sem ég keypti þegar ég var að rölta með Svavari Gestssyni um útimarkað í Búdapest einhverntíma á síðustu öld, ekki að það komi málinu neitt við). Þar með er ekki sagt að ég noti lárviðarlauf í hvað sem er en í suma rétti er það ómissandi. Finnst mér.
En kannski er ég bara að setja stóran stimpil á það sem ég elda og uppskriftir sem ég læt frá mér: Athugið, þessi kona er greinilega komin yfir fimmtugt, hún notar lárviðarlauf.
Hvað segið þið? Er einhver þarna sem er jafnvel bara enn á þrítugsaldri og notar lárviðarlauf? Eða mun notkun þeirra deyja út hérlendis með minni kynslóð?