Allir útí Frankfurt - nema ég
Hálf ritstjórnin er farin á bókamessuna í Frankfurt, sem þýðir að prófarkastaflarnir á borðinu hjá mér hækka og hækka - hér eru nú skáldkonur, fangar, flugvélar og huldufólk með meiru.
En allt er þetta nú á lokasprettinum, verður jafnvel farið fyrir helgi. Mér hefur líka orðið töluvert úr verki í dag (kannski vegna fámennis??); þarf ekki einu sinni að sitja frameftir yfir þessu og er þessvegna að fara heim að steikja tvær rígvænar T-bein-steikur ofan í fjölskylduna (fimmtudagsmatarboði hefur verið fært til vegna fótboltaæfinga bakarísstarfskraftsins).
Spurning jafnvel um þríréttað - barnabörnin verða foj ef þau fá ekki desir og svo minnir mig að ég eigi eitthvert efni í forrétt sem ég þarf að koma í lóg.
Slær allavega örugglega þýskum kræsingum í Arnaldarveislunni í Frankfurt við. Leberknödelsuppe og eitthvað ... nei, það voru nú víst ýkjur.