Leitin að eldinum
Ég var úti í bæ - boðin í mat aldrei þessu vant - þegar ég sá á Textavarpinu að það væri kviknað í húsi við Grettisgötu. Ekkert verulega þægilegt að fá slíkar fréttir; ég hafði þó engar sérstakar áhyggjur (nema hvað nágrannar voru hvattir til að loka gluggum til að ekki fylltist allt af reykjarlykt en ég hafði einmitt farið frá öllum gluggum galopnum). Sauðargæran var aftur á móti nokkuð áhyggjufullur fyrir hönd ömmu sinnar; sagði hughreystandi við mig hvað eftir annað ,,þetta er nú bara í sömu götu" og lét mig lofa því þegar ég fór að hringja og láta vita ef húsið mitt skyldi nú vera að brenna. Þá gæti ég fengið að gista hjá þeim.
En það var semsagt ekki að brenna hjá mér og þrátt fyrir galopna glugga er reykjarlyktin ekki mikil. Svo að hann getur andað léttar.
Kannski eins gott samt að ég leit ekki inn á mbl.is - mér skilst að fyrst hafi staðið þar að eldurinn væri á Grettisgötu 70, sem er hér á móti. (Eða á Laugavegi 70? Sá eitthvað um það líka. Reyndar segir visir.is núna að eldurinn hafi verið á Grettisgötu 47, mbl.is á 57, sem ég held að sé rétt. Og á einhverju bloggi las ég að eldurinn væri á Grettisgötu 67 ...) Eins gott að maður treystir ekki alfarið á þessar heimildir.