Andreu-wannabe
Ég held að það sé enginn sem notar fataskápinn hér frammi nema ég. Ekki þessa dagana allavega (enda flestir aðrir í fríi, aumingja ég fæ sama og ekkert frí).
Allavega, það eru á milli tuttugu og þrjátíu herðatré í þessum skáp. En alltaf skal ég grípa herðatréð sem er rækilega merkt Andreu Róberts og hengja yfirhöfnina mína á það.
Þetta er eina herðatréð í skápnum sem er merkt og ég svosem veit ekki af hverju Andrea sá ástæðu til að merkja sér það. Enn síður veit ég af hverju ég tek það alltaf; ég get svoleiðis þrísvarið að það er ósjálfrátt. Kannski einhver Andreu-wannabe í undirvitundinni ...
En ef herðatréð væri persóna í sögu eftir H.C. Andersen þætti því örugglega sem það hefði sett allmikið niður við þessi býtti. Ég á nefnilega ekki eins flottar yfirhafnir og Andrea.